• Sigurður

Ávarp forstjóra

Góður árangur í gjörbreyttum veruleika

Hagnaður af rekstri TM á síðasta ári nam rúmlega 3,4 milljörðum króna og heildarhagnaður eftir skatta nam rúmlega 5,3 milljörðum króna. Það má teljast góður árangur í ljósi aðstæðna á því sérstaka ári sem 2020 var. Er niðurstaðan talsvert betri en rekstrarspá ársins gerði ráð fyrir.

Hagnaður varð af öllum þremur tekjustoðum félagsins. Afkoma af vátryggingum nálega tvöfaldaðist frá 2019 og var rúmlega 1,1 milljarður. Samsett hlutfall var 94,1% og ávöxtun fjárfestinga var 14,8%. Hagnaður varð af fjármögnunarstarfseminni sem bættist við á árinu með kaupunum á Lykli þótt útlitið framan af ári hafi verið dökkt í ljósi aðstæðna.

Í rekstrarspá ársins 2021 gerum við ráð fyrir góðu jafnvægi í afkomu tekjustoðanna og væntum þess að hagnaður ársins verði tæpir 3,6 milljarðar króna fyrir skatta.

Við, starfsfólk TM, gengum bjartsýn og full tilhlökkunar til móts við árið 2020. Í hönd fór meðal annars það krefjandi og spennandi verkefni að sameina Lykil starfsemi félagsins en gengið var frá kaupum á fjármögnunarfyrirtækinu í upphafi árs 2020. Húsnæði TM við Síðumúla var breytt til að rúma nýja og fjölbreyttari starfsemi og drög lögð að öllu sem ráðast þarf í við sameiningu tveggja stórra og öflugra fyrirtækja. Fram undan var sókn með heildstæða lausn í fjármögnun og tryggingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. En svo bankaði kórónuveiran upp á.

Í mars hafði efnahagsástandið í landinu snarversnað og horfur næstu mánaða og missera voru dökkar. Öll áform og rekstrarspár breyttust á svipstundu. Við erfiðleika í rekstrinum og óvissu til framtíðar bættist svo nýr veruleiki í daglegri starfsemi. Skrifstofum var lokað og starfsfólk gerði heimili sín að vinnustað. Öll þjónusta var veitt í gegnum appið, netið eða síma og bjó félagið að því að hafa þróað og innleitt nýjar þjónustugáttir á undanförnum árum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki sérstaklega vel fyrir að bregðast hratt og fumlaust við breyttum aðstæðum og tryggja að starfsemin gæti gengið hnökralaust. Jafnframt þakka ég viðskiptavinum fyrir að sýna ástandinu ríkan skilning og tileinka sér nýjar leiðir í samskiptum við TM.

Í efnahagslegu tilliti hefur faraldurinn og aðgerðir vegna hans komið harðast niður á fyrirtækjum og starfsfólki í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi. Ekki er ástæða til að ætla annað en að sú mikilvæga starfsgrein nái vopnum sínum á ný þegar tekist hefur að bólusetja þorra fólks. Óvíst er þó hvort ferðahegðun verði nákvæmlega eins og hún var og ekki óhugsandi að aukin vitund um loftlagsmál verði til þess að fólk fljúgi sjaldnar en áður milli landa en dvelji þess í stað lengur á áfangastaðnum. Að sama skapi er líklegt að breyttir samskiptamátar og vinnulag festist í sessi. Fjarfundir verða áfram viðhafðir, sumir munu kjósa að vinna áfram heima og þeir viðskiptavinir sem áður sóttu þjónustu í afgreiðslu og útibú en neyddust til að tileinka sér tæknina í samkomutakmörkununum munu áfram nota hana. Að viðbættum auknum vörukaupum á netinu er ekki óvarlegt að ætla að með þessum breytingum dragi úr bílaumferð, einkum styttri innanbæjarferðum.

Í ávarpi síðasta árs var fjallað um kaupin á Lykli og áform um að afla leyfis til viðskiptabankareksturs í því skyni að taka við innlánum og breikka þar með þjónustu fyrirtækisins enn frekar. En skjótt skipast veður í lofti. Á haustdögum samdist um sameiningu TM, Lykils og Kviku banka sem opnar á nýja og spennandi möguleika við að veita viðskiptavinum sérmiðaðar heildarlausnir í fjármála- og tryggingaþjónustu. Í hönd fer vinna við að renna fyrirtækjum saman, lík þeirri sem fram fór fyrir ári en enn meiri að umfangi og vöxtum. Til verður mjög öflugt fyrirtæki með djúpar rætur og þekkingu á íslensku samfélagi, viðskiptavinum og hluthöfum til hagsbóta.

Sigurður Viðarsson