Ávarp stjórnarformanns
Nýtt upphaf
Árið 2020 var ár mikilla breytinga hjá TM. Fyrir utan áskoranir í rekstri vegna kórónuveirufaraldursins var starfsemi Lykils sameinuð félaginu í byrjun árs og í haust var samið um samruna við Kviku banka. Hvað slíka hluti áhrærir er árið það viðburðaríkasta í 65 ára sögu félagsins.
TM var stofnað í desember 1956 í þeim tilgangi að þjónusta fyrirtæki í sjávarútvegi. Þegar sameiningin við Kviku verður afstaðin síðar á þessu ári mun félagið geta boðið viðskiptavinum sínum, einstaklingum og fyrirtækjum, alhliða fjármála- og tryggingaþjónustu sem sníða má að þörfum hvers og eins.
Í ljósi þess að rekstur TM hefur gengið vel undanfarin ár og ávöxtun hluthafa verið góð frá því að félagið var skráð í Kauphöll árið 2013 er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ráðist er í svo umfangsmikil kaup og sameiningar við önnur fyrirtæki. Því er til að svara að lengst af hafa tekjur TM byggst á tveimur stoðum: tryggingastarfsemi og fjárfestingum. Með kaupum á Lykli var þriðju stoðinni, lánveitingum, rennt undir starfsemina. Við sameininguna við Kviku bætast svo við tvær tekjustoðir til viðbótar: eignastýring og markaðsviðskipti. Stærra félag með verulega aukinn fjárhagslegan styrk og svo fjölþætta starfsemi innanborðs verður mun áhættudreifðara og afar vel í stakk búið til að takast á við ágjafir sem alltaf verða í sveiflukenndu efnahagslífinu á Íslandi. Ótalin eru þá samlegðaráhrifin sem hljótast af sameiningunni en þau munu samkvæmt áætlunum nema um 1,5 milljörðum króna á ári þegar þau eru að fullu komin fram. Þar munar mestu um mikinn ávinning af bættum fjármagnskjörum en einnig lægri rekstrarkostnað. Það er því bjargföst trú stjórnar og stjórnenda að stigin hafi verið farsæl skref félaginu og eigendum þess til heilla.
Stefnt er að því að samruni TM og Kviku gangi í gegn á fyrri hluta ársins. Eigendum fyrirtækjanna samdist þannig um að Kvika eignast TM sem rekið verður í formi dótturfélags og eigendur TM eignast hlut í Kviku. Fara hluthafar TM með 55% eignarhlut í sameinaða félaginu. Vonast er til að starfsemi komist öll undir eitt þak sem fyrst.
Aðalfundur TM ársins
2021 er að öllum líkindum síðasti sjálfstæði aðalfundur þess félags sem stofnað
var 1956 og hafði lengi aðsetur í Aðalstræti í Reykjavík. Allar götur síðan hefur verið kappkostað að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og hluthöfum ábata af fjárfestingu sinni. Þótt félagið verði nú hluti af stærri heild verður leiðarljósið áfram hið sama.
Örvar Kærnested