Rekstrarniðurstöður 2020
Hagnaður af rekstri nam 3.423 m.kr. og var afkoma af vátryggingum yfir markmiðum félagsins. Arðsemi eigin fjár var 26,5% en markmið félagsins er að hún sé hærri en 15%. Stjórn gerir ekki tillögu um arðgreiðslu vegna 2020.
- Hagnaður ársins var 5.311 m.kr. og hagnaður á hlut var 6,88 kr. (2019: 1.866 m.kr. og 2,74 kr.).
- Hagnaður fyrir skatta var 5.673 m.kr. (2019: 1.873 m.kr.).
- Afkoma af vátryggingastarfsemi var 1.158 m.kr. (2019: 644 m.kr.).
- Fjárfestingatekjur voru 4.126 m.kr. (2019: 2.945 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingaeigna var 14,8% (2019: 10,1%).
- Samsett hlutfall var 94,1% (2019: 98,1%).
- Eigin iðgjöld drógust saman um 3,4% á milli ára.
- Eigin tjón lækkuðu um 10,7% á milli ára.
- Hreinar tekjur af fjármögnunarstarfsemi drógust saman um 6,3% á milli ára.*
- Rekstrarkostnaður jókst um 6,0% á milli ára.*
- Arðsemi eigin fjár var 26,5% (2019: 13,0%).
Rekstur
Á árinu 2020 var samsett hlutfall 94,1% og batnaði nokkuð milli ára en samsett hlutfall ársins 2019 var 98,1%. Eigin iðgjöld drógust saman um 3,4% á árinu, fyrst og fremst vegna minnkandi umsvifa í erlendum skipatryggingum og áhrifa kórónuveirufaraldursins á viðskiptavini félagsins í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Á sama tíma lækkuðu eigin tjón tímabilsins um 10,7% og munaði þar mestu um tjón í skipatryggingum. Ökutækjatjón lækkuðu einnig milli ára en tjón í eignatryggingum og ábyrgðartryggingum þróuðust til verri vegar. Afkoma vátrygginga á árinu 2020 nam 1.158 m.kr. borið saman við 644 m.kr. á árinu 2019.
Fjárfestingatekjur á árinu 2020 námu 3.792 m.kr. (án Lykils) sem jafngildir 14,8% ávöxtun. Mjög góð ávöxtun var af óskráðum hlutabréfum en þau hækkuðu um 23,2% á árinu. Góð ávöxtun af stærstu óskráðu fjárfestingaeignum TM, eignarhlutum í Eyri, Stoðum og EE eignarhaldsfélagi (Eskju) vega þar þyngst. Afkoma af skráðum hlutabréfum var einnig mjög góð, um 22,5%. Eignatryggð skuldabréf og önnur verðbréf skiluðu einnig góðri ávöxtun á árinu en afkoma ríkisskuldabréfa var slök.
Rekstur Lykils fjármögnunar á árinu 2020 gekk vel þrátt fyrir krefjandi árferði. Veruleg aukning var í leigusamningnum og útlánum á árinu en virðisrýrnun útlána vegna áhrifa heimsfaraldursins ásamt einskiptiskostnaði vegna skipulagsbreytinga höfðu neikvæð áhrif á afkomuna.
Heildargjöld félagsins námu 18.487 m.kr. árið 2020 sem er 4% lækkun frá árinu 2019*. Tekjuskattur var 363 m.kr. á árinu en hagnaður félagsins eftir skatta nam 5.311 m.kr.
Efnahagur
Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjár- og gjaldþolshlutfalli. Eiginfjárhlutfall var 27,4% í lok árs 2020 og gjaldþolshlutfallið 1,64 en ekki er gert ráð fyrir arðgreiðslu.
Eignir
Í lok ársins námu fjárfestingaeignir 29.638 m.kr. og minnkuðu um 5.638 m.kr. á árinu sem skýrist eingöngu af kaupum félagsins á Lykli fyrir um 9,6 ma.kr. Í lok ársins var 62% af fjárfestingaeignum í handbæru fé, skuldabréfum eða lánum, 29% var í hlutabréfum og 9% í öðrum verðbréfum.
Leigusamningar og útlán í fjármögnunarstarfsemi námu alls 38.835 m.kr. og jókst þessi liður um 10% á árinu. Hins vegar lækkuðu rekstrarleigueignir um 25% og voru 1.862 m.kr. í lok ársins. Á móti nemur lántaka vegna fjármögnunarstarfsemi 33.950 m.kr.
Rekstrarfjármunir og leiguréttindi námu 830 m.kr. í árslok 2020. Húsnæðið sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24. Leiguréttindi eru nú færð til eignar samkvæmt IFRS 16 og námu 317 m.kr. Á móti er færð 392 m.kr. leiguskuldbinding.
Viðskiptavild og óefnislegar eignir námu 837 m.kr. í árslok 2020 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í TM líftryggingum og hins vegar eignfærður hugbúnaður.
Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 670 m.kr. í árslok 2020 og hækka á milli ára vegna stórra tjóna sem fóru yfir endurtryggingamörk á árinu. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru hins vegar færðar með viðskiptakröfum. Viðskiptakröfur og útlán í vátryggingastarfsemi námu 4.667 m.kr. í árslok 2020 og lækka um 5% á milli ára. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 26%.
Eigið fé og skuldir
Eigið fé nam 22.662 m.kr. í árslok 2020 en bundinn eiginfjárliður nemur 7.277 m.kr. Hann inniheldur meðal annars óinnleystar gangvirðisbreytingar verðbréfa og hlutdeild í hagnaði dótturfélaga að frádregnum arðgreiðslum.
Í heild nam vátryggingaskuld TM 21.393 m.kr. í árslok 2020 og þar af var tjónaskuld 15.693 m.kr. eða 73%. Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir hækka á milli ára en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir, áfallin gjöld og ógreiddan tekjuskatt.
*Samanburðartölur miðast við að Lykill hefði verið hluti af starfseminni 2019