Starfskjaranefnd
Starfskjaranefnd er önnur tveggja undirnefnda stjórnar TM en stjórn skal eigi síðar en mánuði eftir aðalfund félagsins kjósa þrjá menn til setu í nefndinni og skulu þeir valdir með hliðsjón af reynslu og þekkingu á viðmiðum og venjum við ákvörðun starfskjara stjórnenda og þýðingu þeirra fyrir félagið. Þá skal meirihluti nefndarmanna vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.
Skýrsla starfskjaranefndar TM starfsárið 2020-2021
Nefndarmenn starfskjaranefndar
Í starfskjaranefnd eru Einar Örn Ólafsson sem er formaður nefndarinnar, Atli Atlason og Helga Kristín Auðunsdóttir sem tók sæti í nefndinni fyrir starfsárið 2020–2021. Skýrsla þessi nær yfir starfsár nefndarinnar frá mars 2020 til mars 2021.
Fjöldi funda og hlutverk
Starfskjaranefnd TM hélt þrjá fundi á starfsárinu.
Hlutverk starfskjaranefndar er að undirbúa ákvarðanir stjórnar TM um almenna starfskjarastefnu félagsins og um starfskjör forstjóra og stjórnarmanna samanber meðal annars 79. gr. a. hlutafélagalaga nr. 2/1995.
Þá ber nefndinni að útbúa drög að starfskjarastefnu félagsins og hafa eftirlit og eftirfylgni með henni.
Nefndinni er jafnframt ætlað að fylgja eftir þróun kjara- og mannauðsmála hjá félaginu til langs tíma og tryggja að laun og önnur starfskjör séu í samræmi við lög, reglur og bestu framkvæmd hverju sinni. Þá skal nefndin meta áhættu sem starfskjaramál kunna að skapa fyrir félagið. Nánar er getið um hlutverk nefndarinnar í starfsreglum hennar.
Á hverju ári kallar nefndin eftir greiningum sem og niðurstöðum mælinga ásamt upplýsingum um starfshætti og ferla við ákvörðun og eftirfylgni starfskjarastefnu félagsins. Nefndin setti sér starfsáætlun í upphafi tímabilsins sem unnið var eftir.
Starfskjarastefna
Starfskjarastefna TM felur meðal annars í sér ítarlegar upplýsingar um helstu þætti kaupaukakerfis. Með því fyrirkomulagi er gagnsæi aukið og tryggt að samþykki hluthafafundar þurfi til að breyta kaupaukakerfinu.
Starfskjaranefnd fór yfir starfskjarastefnu TM auk þess sem farið var yfir reglur um kaupaukakerfi.
Ekki var talið tilefni til að uppfæra starfskjarastefnu né reglur um kaupauka vegna fyrirhugaðs samruna TM og Kviku banka.
Framkvæmd starfskjarastefnu - eftirlit og eftirfylgni
Á fundi starfskjaranefndar með stjórnendum í desember 2020 var farið yfir hvaða aðferðum er beitt við framkvæmd starfskjarastefnunnar innan TM, meðal annars verklag við launaákvarðanir og launagreiningar. Skoðuð var þróun launa hjá TM miðað við þróun launavísitölu og þróun launa á almennum vinnumarkaði.
Farið var yfir framkvæmd starfskjarastefnu TM en eftirfarandi þættir eru lagðir til grundvallar:
Verklag við launaákvarðanir,
launasamtöl,
innri launagreiningar,
verðmætamat starfa,
ytri launagreiningar:
-launagreining PwC,
-jafnlaunagreining,
-launavísitala.
Samkvæmt árangursmælikvörðum kemur til greiðslu kaupauka hjá lykilstjórnendum félagsins vegna ársins 2020 sem nemur 15–25%.
Þróun kjara- og launamála
Innan TM eru unnar launagreiningar til að fylgjast með þróun launa hjá TM í samanburði við launavísitölu, launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá samkeppnisaðilum. Þannig er unnið markvisst að því að uppfylla helsta markmið starfskjarastefnunnar sem er að TM sé samkeppnishæft og geti haldið í og laðað til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins.
Á neðangreindri mynd má sjá að laun innan TM hafa hækkað um 3,8% á tímabilinu frá september 2019 til september 2020. Samkvæmt þessu er þróun launa hjá TM nokkuð undir launavísitölu almenna vinnumarkaðarins sem hefur hækkað um 6,7% á tímabilinu. Kjarasamningsbundnar hækkanir vega um 1,8% í launaþróun tímabilsins innan TM. Launaþróun er tekin út miðað við laun í september ár hvert.
Niðurstaða jafnlaunagreiningar sýnir að óútskýrður munur á launum karla og kvenna er 2,5% körlum í hag á árinu 2020. Þetta er óhagstæð þróun frá fyrra ári þar sem launamunur mældist 2,12% körlum í hag en hafa ber í huga að litlar breytingar geta haft mikil áhrif þar sem samanburðarhópar geta verið fámennir. Frá því að TM fékk jafnlaunavottun árið 2014 hefur launamunurinn sveiflast frá 1,4–4,1% en til að standast jafnlaunavottun þarf munurinn að vera undir 5% samkvæmt viðmiðum vottunaraðilans BSI.
Launakjör forstjóra
Samkvæmt starfskjarastefnu TM skulu starfskjör forstjóra hvað varðar grunnlaun vera samkeppnishæf miðað við forstjóra sambærilegra félaga á íslenskum markaði og taka mið af starfskjörum annarra starfsmanna félagsins til að tryggja samræmi og sanngjarna starfskjarastefnu innan þess. Þá skulu starfskjör forstjóra vera breytileg að hluta til og taka mið af árangri við rekstur félagsins og stöðu þess hverju sinni.
Eins og fram kemur hér að ofan fylgja breytileg starfskjör forstjóra kaupaukakerfi TM sem er tengt við fyrir fram ákveðna og mælanlega árangursmælikvarða sem eru endurskoðaðir af starfskjaranefnd og stjórn ár hvert.
Samkvæmt árangursmælikvörðum nemur kaupauki forstjóra 25% vegna ársins 2020.
Stjórnar- og nefndarlaun
Samkvæmt starfskjarastefnu TM skal þóknun til stjórnarmanna og starfa í undirnefndum taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Við ákvörðun um stjórnarlaun skal einnig horft til þóknana til stjórnarmanna í sambærilegum félögum. Stjórnarmenn njóta ekki hlutabréfa, kaup- eða söluréttar, forkaupsréttar eða annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.
Starfskjaranefnd er ætlað að endurmeta laun stjórnar á hverju ári og horfa meðal annars til launaþróunar innan TM og þróunar á launavísitölu sem og árangurs félagsins. Tillögur starfskjaranefndar um laun stjórnar, nefndarlaun og breytingar á starfskjarastefnu skal leggja fyrir stjórn félagsins sem leggur fram tillögu fyrir aðalfund.
Vegna fyrirhugaðs samruna TM og Kviku banka leggur starfskjaranefnd til óbreytt stjórnarlaun frá fyrra ári sem og vegna starfa í undirnefndum stjórnar.
Mannauðsmál, jafnréttismál og jafnlaunavottun
Mikilvægt er að hlúa vel að starfsfólki en ánægt starfsfólk er vísbending um að fyrirtækið sé góður og eftirsóknarverður vinnustaður auk þess sem margar rannsóknir sýna að ánægja starfsfólks sé forsenda þess að viðskiptavinir séu ánægðir.
Vinnustaðagreining var framkvæmd á árinu 2020. Helstu lykilmælikvarðar sýna áframhaldandi góða stöðu TM í samanburði við gagnabanka Capacent og til dæmis sýna þættir eins og helgun og hollusta góða niðurstöðu eins og áður. Ekkert atriði er á aðgerðabili en unnið er í þeim þáttum sem stjórnendur vilja bæta og ekki síður skoðað hvernig halda má í þennan góða árangur.
Viðhorf starfsmanna til mælikvarða á sviði jafnréttismála þróast lítillega niður á við á árinu 2020 en mikilvægir þættir eins og hollusta, starfsánægja, stolt af vinnustaðnum og viðhorf til stjórnenda og yfirstjórnar mælist sem fyrr mjög hátt.
Kynjaskipting innan TM er 51% karlar og 49% konur. Í hópi stjórnenda eru 68% karlar og 32% konur. Meðallífaldur starfsmanna er 47 ár og meðalstarfsaldur er 14 ár. Starfsmannavelta er um 8% sem skýrist meðal annars af samruna við Lykil. Veikindafjarvistir eru 3,7% sem er lágt hlutfall í samanburði við önnur fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði.
Fræðslustefna TM felur meðal annars í sér markmið um að hjá TM skuli starfa hæft, heiðarlegt og framsækið starfsfólk í umhverfi sem gefur því tækifæri til að vaxa og dafna. Starfsumhverfi TM er flókið og starfsemin gerir miklar kröfur um þekkingu og hæfni. Fræðslumál TM ná jafnframt út fyrir starfsmannahópinn til þeirra sem tilheyra ytri söluleiðum. Tryggingasölumenn taka árlega að minnsta kosti 15 klst. í endurmenntun eða starfsþjálfun til að tryggja þekkingu þeirra og hæfni.
Á fundi með stjórnendum var farið yfir áherslur í fræðslumálum og fram kom að áfram var boðið upp á fræðslu í takt við þarfir hverju sinni. Helstu áherslumál voru:
Reglulega skal framkvæma þarfagreiningu á fræðsluþörfum starfsfólks og uppfæra efni í tak við þarfir.
Áhersla er lögð á rafrænt efni sem bæði er keypt af ytri aðilum en einnig útbúið innan TM.
Keyptur hefur verið aðgangur að Thrive sem er efnisveita með yfir 200 kennslumyndböndum með áherslu á leiðtogaþjálfun, þjónustu við viðskiptavini, jafnréttismál og stafræna færni.
Til viðbótar við Thrive er efni frá Promennt (Microsoft hugbúnaður) og AwareGo (upplýsingaöryggi) aðgengilegt.
Með aðgang að efnisveitum sem þessum er tækifæri til að miðla þekkingu sem til er innanhús á skemmtilegri og markvissari hátt. Þá myndast tækifæri til að bregðast skjótt við ef breytingar eiga sér stað sem hjálpar til við að leggja áherslu á ákveðin viðfangsefni þegar þess er þörf.
Aukin áhersla hefur verið á rafræna fræðslu en rafræna fræðslukerfið Eloomi var tekið í notkun í nóvember 2019. Eloomi er rafrænt fræðslukerfi sem býður upp á námsefni á ýmsu formi, svo sem kynningar á glærum, kennslumyndbönd, upptökur af fundum o.fl. Þá er haldið utan um þátttöku, yfirlit yfir fjölda klst. sem varið er til fræðslu og hvernig fræðslan nýtist. Eloomi gerir TM kleift að auka við framboð rafrænnar fræðslu og þar með sveigjanleika í þátttöku starfsfólks í þeirri fræðslu sem er í boði. Þá gefur kerfið betri yfirsýn yfir sí- og endurmenntun starfsfólks. Frá því að Eloomi var tekið í notkun hefur yfir 35 klst. af rafrænu efni verð bætt inn í TM skólann og haldin hafa verið um 120 rafræn námskeið sem skiptast á eftirfarandi hátt:
Vörur TM – 20%
Nýliðafræðsla – 16%
Öryggismál – 16%
Hugbúnaður – 9%
Annað – 39%
Hver starfsmaður hefur varið tæpum þremur klst. að meðaltali í fræðslu á árinu, konur ívið lengri tíma en karlar.
Til að hjálpa til við samrunann við Lykil var í mars farið í verkefnið Menning til árangurs í samstarfi við Capacent. Markmið verkefnisins er að:
Greina lykileinkenni vinnustaðamenningar eins og hún hefur verið hjá hvoru félagi fyrir sig,
skilgreina þá menningu sem stefnt er á að móta til framtíðar innan TM samstæðunnar í heild,
koma á laggirnar verkefnum sem styðja við þá menningu sem ætlunin er að móta.
Verkefnið felst í því að:
Framkvæma könnun meðal allra starfsmanna,
taka viðtöl við nokkra stjórnendur og starfsmenn úr ólíkum áttum,
halda vinnustofur þar sem öllu starfsfólki gefst kostur á þátttöku.
Verkefnin 2020–2021 eru að:
Nýta þau skilaboð og tækifæri sem komu fram í viðtölum og vinnustofum verkefnisins Menning til árangurs,
starfsfólk samstæðunnar kynnist þeirri fjölbreytni sem ríkir innan starfsmannahópsins,
tengsl og samskipti styrkist innan samstæðunnar,
starfsfólk fái betri skilning á framtíðarsýn og markmiðum TM,
starfsfólk taki þátt í að móta menningu TM til framtíðar,
byggja upp starfsumhverfi sem styður við sveigjanleika, jafnræði, vellíðan og heilbrigði starfsmanna.
Með áformum um sameiningu Kviku banka og TM hefur áherslan færst yfir á samræmingu mannauðs- og starfskjaramála vegna þeirra áforma.
Mat á áhættu vegna starfskjaramála
Vegna áforma um samruna TM og Kviku banka er vakin athygli á mikilvægi þess að fara vel yfir mannauðsmál og starfskjaramál við samrunann. Fyrir liggur að laun og réttindi starfsmanna í þessum tveimur einingum byggja á mismunandi kjarasamningum og mikilvægt er að vinna að samræmingu í þeim efnum. Einnig er mikilvægt er að menning TM og Kviku banka verði samræmd þar sem það besta frá báðum verði ríkjandi. Helsta áhættan hvað varðar starfskjaramálin fram undan er þannig tengd því hvernig til tekst að samræma starfskjör, mannauðsmál og fyrirtækjamenningu á milli þessara tveggja eininga.
Mat á eigin störfum
Nefndin fór yfir þau viðmið sem starfskjaranefnd starfar eftir: lög og reglur, meðal annars um hlutafélög nr. 2/1995, leiðbeiningar um stjórnarhætti, starfsreglur starfskjaranefndar, starfskjarastefnu sem og starfsáætlun. Voru nefndarmenn sammála um að nefndin hefði sinnt þeim atriðum sem þar koma fram og ætlast er til af nefndinni.
Tillögur starfskjaranefndar til stjórnar
Farið var yfir tillögur starfskjaranefndar frá fyrra ári og eins og fram hefur komið hér að framan er þeim ýmist lokið eða unnið að þeim enda margt sem telst vera viðvarandi verkefni. Áherslur hafa breyst vegna fyrirhugaðs samruna við Kviku banka svo sem áherslur sem sneru að samþættingu TM og Lykils en eðli máls samkvæmt breytast áherslur vegna þessa.
Áherslur starfskjaranefndar vegna ársins 2020 voru:
Áframhaldandi áhersla á jafnréttis- og jafnlaunamál,
áframhaldandi stuðningur við endurmenntun starfsmanna og stjórnenda,
að fylgja eftir að útbúin verði viðbragðsáætlun vegna mála sem tengjast óeðlilegum og/eða slæmum samskiptum kynjanna,
að fylgja eftir innleiðingu samskiptasáttmála TM,
endurskoðun á lykilmælikvörðum forstjóra og mögulega annarra stjórnenda vegna breytinga á TM,
að vekja athygli á að fara þurfi vel yfir mannauðsmál og starfskjaramál vegna samruna TM og Lykils fjármögnunar hf.
Starfskjaranefnd leggur ekki fram tillögur til stjórnar félagsins vegna fyrirhugaðs samruna við Kviku banka en bendir á að mikilvægt er að vanda mjög til samrunans sem fram undan er með tilliti til mannauðs- og starfskjaramála og samræmingu þeirra. Helsta áhættan sem fram undan er hvað varðar þann málaflokk er þannig tengd því hvernig til tekst við að samræma starfskjör, mannauðsmál og fyrirtækjamenningu á milli þessara tveggja eininga.
Samantekt
Út frá niðurstöðum vinnustaðagreiningar, mælikvörðum og samræðum við forstjóra og forstöðumann mannauðsmála metur starfskjaranefnd að TM hafi um langt skeið verið framúrskarandi vinnustaður þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á jöfn tækifæri og jöfn kjör. Að mati starfskjaranefndar hafa stjórnendur TM unnið af heilindum að verkefnum á sviði jafnréttismála og allir mælikvarðar í þeim efnum sýna árangur af markvissri stefnu TM í jafnréttismálum.
Niðurstöður árlegrar vinnustaðagreiningar sýna áframhaldandi góða stöðu TM í samanburði við önnur fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði. Markvisst hefur verið fylgst með launaþróun innan TM meðal annars með innri og ytri launagreiningum sem byggja á samanburði við launavísitölu, launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá samkeppnisaðilum. Þannig hefur verið unnið markvisst að því að uppfylla helsta markmið starfskjarastefnunnar sem er að TM sé samkeppnishæft og geti haldið í og laðað til sín framúrskarandi starfsfólk í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni félagsins.
Launaþróun innan TM virðist vera í takt við launaþróun á íslenskum vinnumarkaði og það er mat starfskjaranefndar að launaþróun innan félagsins sé í eðlilegum takti.
TM hlaut jafnlaunavottun árið 2014 og hefur frá þeim tíma staðist jafnlaunaúttektir og þannig viðhaldið vottuninni. Niðurstaða jafnlaunagreiningar sýnir að óútskýrður munur á launum karla og kvenna er 2,5% körlum í hag en til að standast jafnlaunavottun hjá vottunaraðilanum BSI þarf munurinn að vera undir 5%.
Stjórnendum og starfsfólki hefur staðið til boða tækifæri til endurmenntunar á hverju ári sem starfskjaranefnd metur mikilvægt enda þróast vinnumarkaðurinn hratt sérstaklega hvað varðar stafræn mál. Mikilvægt er fyrir stjórnendur og starfsmenn að fylgjast vel með þróuninni og því sem er að gerast í þeim málum á hverjum tíma.
Með tilkomu Lykils urðu til nokkrar áskoranir í starfskjaramálum sem kallað hafa á samræmingarvinnu og samþættingu fyrirtækjamenningar þessara tveggja félaga. Þá hefur flutningur starfsmanna frá Lykli til TM haft áhrif á jafnlaunagreiningu þó heildargreining sé innan marka. Jafnframt fólust áskoranir í að samræma mismunandi réttindi starfsmanna.
Það er mat starfskjaranefndar að vel hafi verið hlúð að starfsfólki TM og að starfsumhverfi félagsins hafi verið með því besta sem gerist á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum árum.
Það er mat starfskjaranefndar að starfskjarastefna félagsins sé í takt við stefnu félagsins, lög og reglur og standist þau viðmið sem gerð eru til starfskjarastefnu félaga á markaði. Laun og önnur starfskjör TM eru að mati starfskjaranefndar í samræmi við stefnu félagsins og reglur FSÍ.
Starfskjaranefnd leggur ekki fram tillögur til stjórnar félagsins vegna fyrirhugaðs samruna við Kviku banka en bendir á að mikilvægt er að vanda mjög til samrunans sem framundan er með tilliti til mannauðs- og starfskjaramála og samræmingu þeirra. Helsta áhættan sem framundan er hvað varðar málaflokkinn er þannig tengd því hvernig til tekst við að samræma starfskjör, mannauðsmál og fyrirtækjamenningu á milli þessara tveggja eininga.
Reykjavík 12. febrúar 2021,
Einar Örn Ólafsson
Helga Kristín Auðunsdóttir
Atli Atlason