Ávöxtun fjárfestingaeigna

Fjárfestingatekjur námu 3.792 m.kr. á árinu 2020 samanborið við 2.945 m.kr. á árinu 2019 og hækkuðu því um 29% á milli ára. Þar af voru um 45% eða 1.698 m.kr. tilkomnar vegna hlutabréfa og sjóða en 33% eða 1.296 m.kr. voru tilkomnar vegna skuldabréfa og lána til viðskiptavina. 

Fjárfestingatekjur 2020 (m.kr.)

 

Fjarfestingatekjur-2020

Ávöxtun fjárfestinga var mjög góð eða 14,8% en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Kviku um 18,8% á árinu. Ávöxtun hlutabréfa var einstaklega góð á árinu en óskráð hlutabréf hækkuðu um 23,2% og skráð hlutabréf og hlutabréfasjóðir hækkuðu um 22,5%. Afkoma af flestum öðrum eignaflokkum var einnig góð en afkoma af ríkisskuldabréfum var slök og nam hækkunin einungis 3,3% á árinu.

Ávöxtun fjárfestinga hefur gengið vel á undanförnum árum. Á síðastliðnum fimm árum hefur árleg ávöxtun verið á bilinu 6,6–14,9% og að meðaltali er árleg ávöxtun 11,9%. Yfir sama tímabil hefur markaðsvísitala Kviku hækkað um 9,9% að meðaltali.

Ávöxtun fjáreigna TM

 

Avoxtun-fjareigna-TM

Í árslok 2020 námu fjáreignir 29.638 m.kr. og voru þannig samsettar að handbært fé, skuldabréf og útlán til viðskiptavina námu 18.382 m.kr. sem er 62% af heildarfjáreignum. Hlutabréf og sjóðir eru 8.551 m.kr. (29% af fjáreignum) og aðrar fjáreignir 2.704 m.kr. (9% af fjáreignum). Staða fjáreigna minnkaði um 5.638 m.kr. á árinu vegna kaupa á Lykli í upphafi ársins. Mesta breytingin var í stöðu handbærs fjár sem minnkaði um 4.587 m.kr. Á árinu jók TM við eign sína í ríkisskuldabréfum en í árslok nam hún 4.101 m.kr. sem jafngildir 14% af fjáreignum félagsins. Hins vegar minnkaði TM eign sína í skuldabréfum öðrum en ríkisskuldabréfum um 2.788 m.kr. milli ára. Þá minnkaði staða skráðra hlutabréfa um 1.578 m.kr. milli ára en óskráð hlutabréf jukust um 1.273 m.kr. sem skýrist af góðri afkomu eignaflokksins á árinu.

Í árslok 2020 var eignarhlutur í Stoðum hf. stærsta einstaka eign félagsins en hún nam 3.540 m.kr. Næststærstu eignirnar voru eignarhlutur í Eyri hf. (1.266 m.kr.) og skuldabréfin RIKB28 (1.087 m.kr.), AL260148 (996 m.kr.) og RIKB31 (886 m.kr.). Fimm stærstu fjáreignirnar námu samtals 8.149 m.kr. sem jafngildir 27% af fjáreignum félagsins. Tíu stærstu fjáreignirnar námu samtals 12.035 m.kr. sem jafngildir 41% af fjáreignum félagsins.