Fréttaannáll

Nokkrir viðburðir sem TM er hluti af féllu niður á árinu vegna COVID-19. Má þar nefna Sjávarútvegsráðstefnuna í Hörpu þar sem TM afhendir verðlaunagripinn Svifölduna fyrir framúrstefnuhugmynd ráðstefnunnar, Arctic Circle ráðstefnuna, IceFish-ráðstefnuna og árlegt TM mót í knattspyrnu sem er vanalega eitt stærsta mót ársins þar sem yfir 4.000 börn taka þátt. TM í síðumúla

2. janúar 2020 : Breytingar á starfsemi umboðsskrifstofa TM

Um áramótin var starfsemi TM umboðanna á Reyðarfirði, Ólafsfirði, Blönduósi og í Borgarnesi hætt. TM mun enn kappkosta að veita góða og faglega þjónustu á svæðunum í samstarfi við aðila sem taka að sér tjóna- og áhættuskoðanir. Einnig er bent á að TM appið er aðgengilegt hvar og hvenær sem er og í því er hægt að tilkynna tjón, nálgast yfirlit yfir tryggingar og iðgjöld og margt fleira. Auk þess er hægt að tilkynna tjón til TM allan sólarhringinn í síma 800 6700.

 

7. janúar 2020 : TM lauk við kaup á Lykli

7. janúar 2020 var lokið við kaupin á Lykli með greiðslu kaupverðs, að undanskildu því sem nemur hagnaði Lykils árið 2019, og Lykill því orðinn hluti af samstæðu TM. Kaupin munu styrkja samstæðuna, auka hagnað til hluthafa og skapa spennandi tækifæri í vátrygginga- og fjármálaþjónustu á næstu misserum.

Á myndinni má sjá Sigurð Viðarsson forstjóra TM og Jón Örn Guðmundsson forstjóra Klakka handsala kaupin.

30. janúar 2020 : Nýtt skipurit TM hf.

Í samræmi við stefnu TM og markmið með kaupunum á Lykli var nýtt skipurit innleitt hjá félaginu sem endurspeglar nýjar áherslur og mun gera TM kleift að sækja fram í fjölbreyttri og framsækinni fjármálaþjónustu fyrir viðskiptavini samstæðunnar. Nýtt skipurit tók gildi 1. febrúar.

Skoða skipurit

Lykill

27. febrúar 2020 : Lykill fjármögnun flutti starfsemi sína til TM

7. janúar síðastliðinn lauk TM við kaup á Lykli fjármögnun og í framhaldi varð Lykill hluti af samstæðu TM. Nýtt skipurit TM tók gildi 1. febrúar og þann 27. febrúar flutti Lykill alla starfssemi sína úr Ármúlanum í húsnæði TM að Síðumúla 24 og voru nýir samstarfsfélagar boðnir velkomnir.

TM

6. mars 2020 : TM fékk tvær tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna

Þann 6. mars var tilkynnt hvaða vefir eða stafrænu lausnir hlytu tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna. TM hlaut tvær tilnefningar, annars vegar fyrir Vádísi, rafrænan ráðgjafa við kaup á tryggingum í flokknum Söluvefur ársins og hins vegar fyrir TM appið í flokknum App ársins.

Waterfall-666996_960_720

15. mars 2020 : Breyting á þjónustu TM vegna COVID-19

Vegna samkomubanns og uppfærslu á áhættumati sóttvarnalæknis var afgreiðslu viðskiptavina á þjónustuskrifstofum TM hætt tímabundið og bent á aðrar þjónustuleiðir TM: netspjallið á tm.is, TM appið, þjónustusíður TM, tölvupóst, síma og rafrænan ráðgjafa á tm.is.

TM

30. apríl 2020 : Tilkynning um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofns TM hf. til TM trygginga hf.

Þann 30. apríl sendi TM hf. umsókn til Fjármálaeftirlitsins þar sem óskað var eftir að félaginu yrði veitt heimild til að flytja vátryggingastofn sinn til TM trygginga hf. Við flutning stofnsins myndu TM tryggingar hf. yfirtaka öll réttindi og skyldur sem stofninum fylgja.

covid

5. maí 2020 : Greiðslufrestur vegna COVID-19

TM kom til móts við viðskiptavini sína í greiðsluvanda, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki, með þeim hætti að bjóða upp á greiðslufrest án aukakostnaðar. Hægt var að sækja um frest á greiðslu iðgjalda trygginga í allt að þrjá mánuði frá byrjun maí, eða til loka júlí. Auk þess stóð viðskiptavinum til boða að dreifa frestuðum iðgjaldagreiðslum í allt að 12 mánuði án aukakostnaðar. Tekið skal fram að þegar greiðslu iðgjalda er frestað eru tryggingar að sjálfsögðu í fullu gildi.

Tímabókanir

24. maí 2020 : Tímabókanir

Til verndar viðskiptavinum og starfsmönnum og svo unnt væri að verða við fyrirmælum um tveggja metra fjarlægð reyndist nauðsynlegt að koma upp tímabókunum fyrir fram til að fá afgreiðslu á skrifstofu TM í Síðumúla 24. Öll þjónusta í tengslum við tryggingar og tjón var veitt í síma, netspjalli, tölvupósti, appinu eða á tm.is. Ef ekki var unnt að leysa úr málinu með einhverri af þessum leiðum stóð tímabókun til boða frá því í maí.

TM mótið í eyjum

16. júní 2020 : TM mótið í Eyjum í ár fjölmennasta mótið til þessa

TM mótið í Eyjum fór fram dagana 10.–13. júní en mótið hefur verið haldið árlega frá árinu 1990 fyrir stelpur í 5. flokki í knattspyrnu. Í ár voru það tæplega 1.000 stelpur frá 30 félögum víðs vegar að af landinu í samtals 100 liðum sem kepptu og hafa þau aldrei verið fleiri. Stelpurnar spiluðu ekki bara fótbolta, þær tóku þátt í hæfileikakeppni, fóru í bátsferð og skemmtu sér saman. Allir keppendur fengu þátttökupening. Valinn var einn fulltrúi frá hverju félagi sem tók síðan þátt í landsleik mótsins. Í lokin stóðu uppi 12 lið sem bikarhafar á mótinu, valið var lið mótsins og prúðmennska og háttvísi var verðlaunuð.

TM

24. ágúst 2020 : TM fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

TM var í hópi 17 fyrirtækja sem fengu viðurkenningu fyrir góða starfshætti. Það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenninguna og nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Kvika

29. september 2020 : Viðræður um sameiningu Kviku banka hf. og TM hf.

Þann 29. september samþykktu stjórnir Kviku banka og TM að hefja viðræður um sameiningu félaganna. Forsendur viðræðna byggðust á því að TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill fjármögnun hf., núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku banka. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar í TM fái sem endurgjald fyrir hlutabréf sín í TM 55% hlut í sameinuðu félagi miðað við útgefna hluti félaganna í dag.

Fyrirmyndar fyrirtæki 2020

15. október 2020 : TM er fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri

TM lenti í 22. sæti á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2020. Alls voru ríflega 1.100 fyrirtæki sem komust á listann að þessu sinni eða um 2,8% fyrirtækja landsins. Í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem fylgdi Viðskiptablaðinu þann 15. október var að finna lista yfir þau fyrirtæki sem standa upp úr á Íslandi og eru þar með öðrum til fyrirmyndar í rekstri.

Sameining

25. nóvember 2020 : Kvika banki, TM og Lykill sameinast

Þann 25. nóvember samþykktu stjórnir Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. að sameina félögin.

Á vikunum þar áður höfðu félögin átt í viðræðum og framkvæmt gagnkvæmar áreiðanleikakannanir. Stjórnir félaganna fóru yfir niðurstöður þeirra og ákveðið var að sameina félögin. Samkvæmt samrunasamningi sem samþykktur var þann 25. nóvember 2020 mun TM færa tryggingastarfsemi sína í dótturfélag sitt, TM tryggingar hf. Í kjölfarið fari fram þríhliða samruni Kviku, TM og Lykils. TM tryggingar verða í kjölfarið dótturfélag sameinaðs félags.

30. desember 2020 : Vátryggingastofn TM hf. flyst til TM trygginga hf.

Þann 1. janúar 2021 fluttist vátryggingastofn TM hf. til dótturfélagsins TM trygginga hf. Við flutning stofnsins yfirtóku TM tryggingar hf. öll réttindi og skyldur sem stofninum fylgja, meðal annars gagnvart viðskiptavinum, tryggðum og tjónþolum og allir tryggingarsamningar héldu sjálfkrafa gildi við flutninginn.
Þá tók TM tryggingar hf. sömuleiðis við réttindum og skyldum samkvæmt samningum við umboð, viðgerðaraðila, verktaka og aðra þjónustuveitendur í tengslum við tryggingastarfsemi.

Flutningur stofnsins hafði engin áhrif á viðskiptavini félagsins eða samstarfsaðila og þurftu þeir ekki að gera neinar ráðstafanir vegna hans.

Flutningur vátryggingastofnsins er liður í fyrirhugaðri sameiningu TM hf. og Kviku banka hf. þar sem tryggingastarfsemi samstæðunnar er færð í sérstakt dótturfélag, TM tryggingar hf.