Hugsum í framtíð

Á árinu hélt TM áfram vegferð sinni í þróun nýrra og þægilegra lausna fyrir viðskiptavini. Félagið bjó vel að þróunarstarfi undanfarinna ára þegar óvenjulegar aðstæður sköpuðust vegna kórónuveirufaraldursins og lokunar þjónustuskrifstofa í kjölfarið. Starfsmenn og viðskiptavinir þurftu að tileinka sér nýjar lausnir á stuttum tíma og það er óhætt að segja að röskun á daglegri þjónustu hafi verið óveruleg þökk sé góðum samskiptaleiðum og lausnum. Þá leiddi ástandið ótvírætt til þess að mörgum þróunarverkefnum var hraðað og gerði það starfsmenn og starfsemi í stakk búna að taka stærri og ákveðnari skref í átt til framtíðar í þessum efnum.

Nú eru allar helstu tryggingar fyrir einstaklinga í boði á vefnum og núverandi og tilvonandi viðskiptavinir geta farið í gegnum sjálfvirkt kaupferli þegar þeim hentar. TM er eina tryggingafélagið á Íslandi sem býður upp á sölu trygginga á netinu þar sem ferlið allt frá ráðgjöf til uppsagnar trygginga hjá öðru félagi fer fram án þess að starfsmaður komi að málinu.

Tryggingar sem bættust við vöruframboð TM á vefnum árið 2020 voru meðal annars:

  • Barnatrygging TM. Trygging sem veitir foreldrum og börnum góða fjárhagslega vernd vegna sjúkdóma og slysa sem börn kunna að verða fyrir.
  • Rafhjólatrygging TM. Sérsniðin trygging fyrir eigendur rafhjóla, rafhlaupahjóla og léttra rafknúinna bifhjóla. Þessi farartæki njóta sívaxandi vinsælda sem ferðamáti og rafhjólatrygging TM verndar viðskiptavininn sjálfan, farartækið og þá sem kunna að slasast af völdum þess.
  • Sumarhúsatrygging TM. Ný og endurbætt sumarhúsatrygging fór í loftið og er að sjálfsögðu aðgengileg í vefsölu TM eins og aðrar nýjungar.

Öllum eyðublöðum TM var komið á rafrænt form á árinu svo nú geta viðskiptavinir skilað til okkar tjónstilkynningum, umsóknum og öðrum eyðublöðum með rafrænni undirritun.

Rafræn auðkenning í netspjalli TM var sett í loftið í sumar. Þessi viðbót við þjónustuleiðir okkar gerir starfsmönnum kleift að þjónusta viðskiptavini betur í gegnum netspjall og ljúka þar fleiri málum með einni snertingu. Áður þurfti oftar en ekki að ljúka málum með frekari samskiptum í gegnum tölvupóst eða jafnvel með því að viðskiptavinur þurfti að gera sér ferð á þjónustuskrifstofu.

Þróun á TM appinu hélt áfram og ný virkni í appinu á árinu 2020 var meðal annars:

  • Sjálfvirk greining kvittana sem viðskiptavinir senda vegna tjóna, sem leiðir til enn styttri afgreiðslutíma þeirra.
  • Kaskóskoðun ökutækja. Viðskiptavinir sem bæta við kaskótryggingu á vefnum ljúka ferlinu með kaskóskoðun í TM appinu og sjálfvirkri útgáfu og gildistöku tryggingar.
  • Fjölgun tegunda tjóna sem hægt er að tilkynna með appinu. Nú er hægt að tilkynna öll frítímaslys og veikindi með appinu.

Þróun og hönnun á nýjum vef TM fór fram seinni hluta ársins og vefurinn fór í loftið í janúar 2021. Nýr vefur endurspeglar vel þá áherslubreytingu sem hefur orðið í þjónustu TM því vefurinn er í reynd orðinn okkar stærsta þjónustuskrifstofa. Markmið TM er að viðskiptavinir félagsins fái úrlausn erinda sinna þar sem þeir eru og þegar þeim hentar. Í því felst meðal annars að þjónusta okkar sé aðgengileg á tm.is og í TM appinu. Á tm.is geta viðskiptavinir nú nýtt sér netspjall með auðkenningu, pantað símtal frá ráðgjafa eða tjónafulltrúa, bókað fjarfund eða bókað heimsókn á þjónustuskrifstofu — allt eftir því sem hverjum og einum hentar best.

Viðtökur viðskiptavina við nýjum lausnum TM hafa verið virkilega góðar á árinu og fyrir það erum við þakklát. Endurgjöf þeirra og ábendingar um það sem betur má fara eru okkur hvatning á áframhaldandi vegferð í öllum þróunarverkefnum.

Hugsum í framtíð.