Ófjárhagslegir mælikvarðar

Samfélagsleg ábyrgð

Stefna TM um samfélagsábyrgð felur í sér þrjár meginstoðir: Forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðning við vaxtarbrodda samfélagsins. Hlutverk TM er að hjálpa viðskiptavinum að treysta fjárhagslega framtíð sína. 

Stefna

Stefna TM um samfélagsábyrgð felur í sér þrjár meginstoðir: Forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðning við vaxtarbrodda samfélagsins. Hlutverk TM er að hjálpa viðskiptavinum að treysta fjárhagslega framtíð sína. Starfsfólk TM og stjórn félagsins telur að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki líkur verulega á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðleg áhrif á ímynd þess og orðspor. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og þannig má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.

Tryggingar og samfélagsleg ábyrgð

TM hefur um árabil verið meðvitað um samfélagslega ábyrgð sína en tryggingafélög um heim allan hafa beint sjónum sínum að málaflokknum, ekki síst hvað varðar loftslagsmál. Á undaförnum árum hafa tjón af veðurtengdum atburðum sem rekja má til hlýnunar jarðar aukist verulega bæði hvað varðar tíðni og alvarleika slíkra atburða. TM hefur vakið athygli á þessari þróun og meðal annars fengið sérfræðing til landsins til að halda erindi um auknar öfgar í veðri og áhrif þeirra á tryggingastarfsemi í heiminum. Í umfjöllun um samfélagslega ábyrgð tryggingafélaga er gjarnan rætt um þrjú þroskastig við innleiðingu á slíkri stefnu:

  1. Eigin starfsemi, innleiðing markmiða og mælikvarða fyrir félagið sjálft,
  2. samfélagsleg ábyrgð í fjárfestingum,
  3. val á viðskiptum út frá samfélagslegri ábyrgð.


Segja má að TM hafi lagt megináherslu á fyrsta þáttinn en hefur í auknum mæli horft til ákvarðana varðandi fjárfestingar (stig 2) og var meðal annars stofnaðili að IcelandSIF. Tilgangur þess félags er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um sjálfbærar fjárfestingar.

TM hefur einnig horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og PSI (Principles for Sustainable Insurance) rammans fyrir tryggingafélög. Í þeim ramma er samfélagsleg ábyrgð tengd við áhættustýringu sem er einn mikilvægasti þátturinn í tryggingarekstri. TM gefur árlega út samfélagskýrslu (ESG) auk þess að birta sambærilegar upplýsingar á vefkerfi Nasdaq OMX.

Í tengslum við kaupin á Lykli stóð til að endurnýja stefnu félagsins varðandi samfélagslega ábyrgð en ákveðið var að bíða með það verkefni vegna fyrirhugaðrar sameiningar félagsins við Kviku banka. Reikna má með að sett verði ný stefna fyrir samstæðuna í heild að lokinni sameiningu.

Markmið um loftslagsmál

TM hefur undirritað yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál og sett sér markmið í þeim efnum til 2030. Markmið félagsins er að minnka kolefnisfótspor sitt að lágmarki um 34% og auka flokkun úrgangs í 80% á tímabilinu. TM hóf skipulegar umhverfismælingar árið 2015 en kolefnisfótspor félagsins á árinu 2020 var 524 kg á hvert stöðugildi (2019: 1.273 kg). Verulega dró úr losunarkræfni starfsmanna vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins eða um sem nemur 59%, aðallega vegna meiri heimavinnu starfsmanna, færri flugferða og bættrar nýtingar húsnæðis í kjölfar kaupanna á Lykli. Flokkunarhlutfall úrgangs lækkaði hins vegar á árinu í 31% (2019: 46%) og stafar það fyrst og fremst af úrgangi frá framkvæmdum í tengslum við flutning á starfsemi Lykils í höfuðstöðvar félagsins.

Starfsmannastefna

Meginmarkmið starfsmannastefnu TM er að félagið hafi á að skipa hæfu, heiðarlegu og framsæknu starfsfólki og að TM veiti starfsfólki sínu sem best skilyrði til að sinna þeim verkefnum sem störf þeirra krefjast og möguleika til þess að vaxa og dafna í starfi. Skýr starfsmannastefna styður félagið í að veita og viðhalda framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina og samstarfsfélaga. Hjá TM leggja allir sitt af mörkum við að skapa góðan starfsanda. Það er stefna TM að starfsmönnum líði vel á vinnustað þar sem þeir eru virkir þátttakendur og mæta stuðningi og sanngirni. Samskipti og framkoma starfsmanna einkennist af heiðarleika, virðingu og trausti. Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar reglulega og er markvisst unnið úr niðurstöðum þeirra í því skyni að auka starfsánægju. TM leggur ríka áherslu á kynjajafnrétti og jafnréttismál eru meðal forgangsatriða í þróun og framtíðarsýn félagsins. Hver starfsmaður skal metinn á eigin forsendum óháð kynferði og öll mismunun er óheimil innan félagsins í hvaða formi sem hún birtist. TM hefur haft jafnlaunavottun frá árinu 2014 og var með fyrstu fyrirtækjum til að fá viðurkenningu Jafnréttisvísis Capacent.

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir TM fylgja lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Einnig grundvallast stjórnarhættir félagsins á ýmsum stjórnvaldsfyrirmælum svo sem reglugerðum og reglum útgefnum af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og Kauphöll. Tilvísaðir lagabálkar eru meðal annars aðgengilegir á vef Alþingis, althingi.is, og leiðbeiningar um stjórnarhætti eru aðgengilegar á vef Viðskiptaráðs, vi.is. Auk þess byggjast stjórnarhættir félagsins á ýmsum stefnum og innri reglum sem það hefur sett sér, til dæmis:

  • Starfsreglum stjórnar,
  • starfsreglum endurskoðunarnefndar,
  • starfsreglum starfskjaranefndar,
  • reglum TM um viðskipti innherja og meðferð innherjaupplýsinga,
  • reglum TM um atkvæðagreiðslu utanhluthafafundar.


Eru þessar reglur aðgengilegar á heimasíðu TM hér.


Jafnframt hefur félagið, lögum samkvæmt, sett sér meðal annars eftirfarandi stefnur: áhættustefnu, stefnu um innra eftirlit, stefnu um innri endurskoðun, stefnu um hæfi og hæfni stjórnarmanna o.fl., stefnu um reglufylgni, stefnu um gæði gagna og gagnaskil, stefnu um tryggingastærðfræði í starfi TM, starfskjarastefnu og útvistunarstefnu.

Félagið fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út og miðar félagið við útgáfu frá maí 2015. Félagið víkur þó frá þeim fyrirmælum leiðbeininganna um að hluthöfum skuli gert kleift að taka þátt í hluthafafundi rafrænt, að hluta til eða fullu, þar með talið að greiða atkvæði án þess að vera á staðnum. Miðað við stærð og samsetningu hluthafahóps félagsins hefur ekki þótt ástæða til að víkja frá núverandi fyrirkomulagi. Hluthöfum er í staðinn veittur kostur á að greiða atkvæði bréflega eins og hlutafélagalög áskilja. TM hefur fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum á vegum Stjórnvísi. 


Samfélagsuppgjör 

Hér má finna þær mælingar sem TM birtir í tengslum við tilraunaverkefni Nasdaq OMX og snúa að umhverfis-, félagslegum- og stjórnunarþáttum (e. environmental, social and governance).