Samsett hlutfall

Samsett hlutfall sem er einn af lykilmælikvörðum TM er nú reiknað út í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 1/2020. Hlutfallið er samanlagt tjónshlutfall, kostnaðarhlutfall og endurtryggingahlutfall reiknað út frá iðgjöldum tímabilsins. Ekki er nú tekið tillit til vaxta- og gengisbreytinga í samsettu hlutfalli.

Tjónshlutfall er tjón deilt með iðgjöldum ársins. Kostnaðarhlutfall er kostnaður sem fellur á tryggingastarfsemina deilt með iðgjöldum. Endurtryggingahlutfall er samanlögð endurtryggingaiðgjöld og hlutur endurtrygginga í tjónum að viðbættum umboðslaunatekjum deilt með iðgjöldum ársins.

Í sögulegu og alþjóðlegu samhengi hefur samsett hlutfall verið hátt á Íslandi. Á Norðurlöndunum hefur samsetta hlutfallið síðastliðin 20 ár verið um eða undir 90%. Segja má að þar hafi myndast samhljómur um að tryggingastarfsemin eigi að standa undir rekstri félaganna þannig að þau þyrftu að reiða sig minna á afkomu fjárfestinga til að skila eðlilegri arðsemi.

Samsett hlutfall hækkar gjarnan á tímum verðbólgu þar sem verðlag hækkar frá því að iðgjöld eru greidd þar til bæta þarf tjón. Til þess að bregðast við þessu fjárfesta tryggingafélög gjarnan í verðtryggðum verðbréfum sem þá skila hærri fjárfestingatekjum þegar verðbólga eykst. Það helst því oft í hendur að þegar afkoma af tryggingum er slök skila fjárfestingar góðri afkomu. Það sama á við þegar mikill hagvöxtur er í þjóðfélaginu, þá eykst tjónatíðni t.d. vegna meiri umferðarþunga og samsetta hlutfallið hækkar. Í örum hagvexti eykst virði hlutabréfa og þar með afkoma fjárfestinga tryggingafélaganna.

Markmið TM er að samsetta hlutfallið sé til lengri tíma undir 95% en lögð hefur verið áhersla á að bæta aðferðir í verðlagningu, áhættumati, endurtryggingum og almennum rekstri. TM hefur síðustu ár lagt mikla áherslu á að nýta nýjar tölfræðilegar aðferðir til að bæta áhættutöku og verðlagningu og fela þær meðal annars í sér greiningu á þekktum áhættuþáttum eins og aldri, fjölskyldusamsetningu og búsetu tryggingataka.


 

Samsett-hlutfall-2020