Starfsfólk TM

Starfsfólk TM er lykillinn að árangri og velgengni fyrirtækisins. Það er TM því sérstakt kappsmál að skapa lifandi og kraftmikið starfsumhverfi og vera aðlaðandi vinnustaður fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk. Aðeins þannig getur félagið þróast og eflst með það að markmiði að mæta kröfum framtíðarinnar.

Í árslok 2020 voru fastráðnir starfsmenn TM-samstæðunnar 163 talsins, 83 karlar og 80 konur með ólíka menntun og reynslu sem skapar jarðveg fyrir fjölbreytt sjónarmið og hugmyndir.

Jafnréttismál

Á undanförnum árum hefur TM lagt áherslu á jafnréttismál og frá árinu 2017 hefur verið unnið að sérstöku verkefni til að styrkja stöðu jafnréttismála enn frekar.

TM var með fyrstu fyrirtækjum til að fá viðurkenningu Jafnréttisvísis Capacent. Við veitingu hennar var meðal annars horft til menningar, samskipta og vinnuumhverfis, stefnu og skipulags, launa og fyrirmynda innan TM.

Þá hefur TM verið með jafnlaunavottun samfellt frá árinu 2014. Í síðustu úttekt sem var í ágúst 2020 mældist óútskýrður kynbundinn launamunur 2,5% hjá TM, körlum í hag.

Helgun starfsfólks

Helgun (e. engagement) starfsfólks er mæld samkvæmt svörum þess við kjarnaspurningum Gallup í vinnustaðagreiningu. Helgun er einn af fimm lykilmælikvörðum TM og hefur félagið sett sér markmið um að helgun mælist 4,2 (af 5 mögulegum) eða hærri.

Helgun starfsfólks í vinnustaðagreiningu 2020 mældist 4,35 og félagið náði því markmiðum sínum á þeim mælikvarða. Niðurstöður vinnustaðagreiningarinnar voru almennt mjög jákvæðar. Mikilvægir þættir eins og hrós og endurgjöf ásamt því að upplifa skýrar væntingar og fá hvatningu til starfsþróunar hækkuðu marktækt (≥ 0,2) milli greininga. Enginn þáttur lækkaði marktækt milli greininga (mældust lægri 2020 en 2019).

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun helgunar starfsfólks TM síðustu ár.

Þróun helgunar hjá TM 2006–2020

 

Starfsfolk-helgun-2020